154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

félagsleg aðstoð.

145. mál
[13:27]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Hér er um mjög gott mál að ræða. Það snýst um að styrkja þá sem eru fatlaðir þannig að þeir geti farið ferða sinna í samfélaginu. Það er rétt að fara aðeins yfir það, vegna þessa smásmyglisháttar sem er hafður gagnvart þessum hópi og hv. þm. Inga Sæland mælir hér fyrir máli til að leiðrétta og færa til betri vegar, að það eru aðrir hópar sem njóta sérstakra styrkja miklu fremur heldur en þessi hópur. Þá er ég að tala um elítu landsins. Hún fær mikla styrki. Þá er ekki að heyra annað en að flokkur frelsisins gangi þar fremstur í flokki í að veita elítunni styrki.

Aftur að því að ég hefði talið rétt að hæstv. félagsmálaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, væri hér viðstaddur til að fá örlitla herslu á viðhorfum sínum. Auðvitað er þetta eflaust erfitt og hæstv. ráðherra verður meðvirkur af því að vera stöðugt í umhverfi þar sem það er talið óeðlilegt að veita þeim sem minna mega sín styrki, það er rauði þráðurinn, en veita hins vegar mjög ríkulega styrki til þeirra sem meira mega sín. En það má helst ekkert ræða um það. Og hverjir eru það sem hafa hlotið hér mestu styrki á síðustu árum? Þá erum við að tala um miklu hærri upphæðir en hv. þm. Inga Sæland var hér að mælast til að fólk gæti notið þannig að það gæti komist ferða sinna og tekið þátt í samfélaginu. Þá er ég að tala um t.d. þann styrk sem hæstv. umhverfisráðherra veitti bílaleigunum. Var það ekki milljarður? Það var eitthvað í kringum það og kannski ríflega það. Heill milljarður, það eru 1.000 milljónir, það eru nokkrir bílar fyrir öryrkja eða þá sem eru hreyfihamlaðir, þær milljónir hefðu getað nýst í kaup á nokkrum bílum fyrir hreyfihamlaða. En auðvitað var þetta varla rætt, þeim var bara snarað út.

Það eru til fjármunir fyrir elítuna og fyrir elítuna í Sjálfstæðisflokknum en síðan er minna eftir fyrir hina. Þetta ætti hinn almenni kjósandi þess flokks eða sá sem er enn þá að leggja honum lið að hugsa um og hugsa sinn gang. Þetta er auðvitað ekki lengur flokkur allra landsmanna og alls ekki þeirra sem eru hreyfihamlaðir. Þetta er flokkur bílaleiganna. Þetta er einnig flokkur fleiri aðila, ekki mjög margra, sem eru þar í forgrunni þegar á að veita styrki. Við vitum að það er fámennur hópur sem hefur einokun á því að nýta fiskimiðin og fá jafnvel fiskinn í vinnslurnar á lægra verði en aðrir. En þeir fá líka fleiri styrki, herra forseti. Þeir fá styrki, gott ef það voru ekki 270 milljónir sem stórútgerðin fékk í styrki núna, m.a. til að kaupa rafmagnslyftara. Þetta eru tæki sem hafa verið í notkun, alla vega þegar ég var að vinna í frystihúsi Þormóðs ramma fyrir nokkrum áratugum síðan, þá var rafmagnslyftari þar. Þannig að það er ekki mikil nýsköpun en þegar það þarf að koma út peningum þá er bara fundin einhver ástæða og þarna fóru 270 millj. kr., ef ég man það rétt, herra forseti, bara svona út úr Orkusjóði. Engin nýsköpun sem ég gat séð að væri nokkur í þessum verkefnum. En þegar kemur að hreyfihömluðum þá er enginn hér í salnum og það þarf helst að toga þessar upphæðir með töngum út úr ríkissjóði meðan það bara streymir út úr honum og alls konar fyrirsláttur notaður, t.d. til kaupa á rafmagnslyfturum. Þetta er alveg ótrúlegt.

Það eru fleiri styrkir sem renna til elítunnar. Ég bý á Sauðárkróki og ég hef alltaf verið fylgjandi flutningsjöfnunarstyrkjum. En þegar ég sá hvert flutningsjöfnunarstyrkirnir renna þá fóru að renna á mig tvær grímur því að það var ekki til minni fyrirtækjanna. Maður sá ekki að þetta kæmi kannski beint við budduna hjá bændum sem eru t.d. að flytja vörur eða þess háttar en mögulega gerir það það. En bróðurparturinn af peningunum fór til stórfyrirtækjanna, til fyrirtækjanna sem njóta nú þegar forréttinda og eru kvótaþegar. Það þarf auðvitað að koma meiri fjármunum á þau. Þetta er bara orðið of langt gengið. Þetta er mjög öfugsnúið, sérstaklega ef maður skoðar það í samhengi við það sem við erum að ræða hérna, styrki til hreyfihamlaðra. Þeir eru settir greinilega mun aftar í forgangsröðina heldur en ágætt fyrirtæki norður í landi, Samherji t.d. og það fyrirtæki sem ég er félagsmaður í, Kaupfélag Skagfirðinga. Það er í forgrunni.

Ég er nokkuð viss um það að almenningur er ekki þessu sammála og ég er nokkuð viss um að meiri hluti þeirra sem fylla enn þá flokk Vinstri grænna sé þessu ekki sammála og örugglega ekki Sjálfstæðisflokksins. Þetta er öfugsnúið. En t.d. þessir flutningsstyrkir sem hæstv. innviðaráðherra veitir, þeim er bara illa varið og þetta kemur óorði á stjórnvöld. En einhvern veginn virðist vera einhver sjálfstýring, menn fara að bugta sig og beygja þegar stóru peningarnir koma en það er alltaf allt í lagi að reigja sig þegar kemur að litla manninum. Þetta er svolítið lýsandi fyrir stöðuna á Íslandi í dag.

Ég ætla að láta þessi orð nægja um þetta frumvarp en mér finnst þetta litla mál vera þess eðlis að við öll séum því sammála, ekki endilega meiri hlutinn hér á þinginu, en ég þori að fullyrða það og jafnvel hengja mig upp á að meiri hluti þjóðarinnar vill breyta þessari forgangsröðun þannig að mál eins og þetta fái framgang en ekki einhverjar styrkveitingar til elítunnar á Íslandi.